Vopnað rán á Selfossi

Þrír menn voru handteknir í gærkvöldi eftir vopnað rán í fjölbýlishúsi á Selfossi.

Mennirnir, sem eru á milli tvítugs og þrítugs, voru vopnaðir hnífum en þeir ógnuðu íbúum í íbúðinni og gestum þeirra og höfðu á brott með sér tölvur og önnur verðmæti. Enginn slasaðist í árásinni.

Árásarmennirnir voru allir í annarlegu ástandi og eiga sér sögu um afbrot og fíkniefnaneyslu. Þeir náðust allir í gærkvöldi. Skömmu eftir ránið sá lögregla til mannanna í bíl sem ekið var um Selfoss og lögreglan þekkti. Mennirnir stöðvuðu bifreiðina þegar lögregla gaf merki til þess en komust undan á hlaupum. Upphófst þá mikil leit að þeim.

Lögreglan í Árnessýslu fékk aðstoð frá sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við að handsama mennina þar sem þeir voru vopnaðir. Þeir náðust svo síðar í sitthvoru lagi. Tveir þeirra voru handteknir á Selfossi og sá þriðji fannst í bíl við Rauðavatn á leið til Reykjavíkur.

Sérsveitin stöðvaði umferð á þjóðveginum til þess að ná manninum. Þýfið fannst við húsleit á heimili þeirra. Ekki er talið að þeir hafi átt neitt sökótt við fólkið sem þeir réðust inn til. Fjórir voru í íbúðinni og settu þeir sig í samband við lögregluna eftir að ræningjarnir voru farnir.

Mennirnir eru allir vistaðir í fangageymslum á Selfossi og verða yfirheyrðir í dag. Þá verður tekin ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir þeim.

Fyrri greinSnjókristallar í Listasafninu
Næsta greinGæsluvarðhalds óskað