Vonbrigði að Kjarval sé lokað með stuttum fyrirvara

Kirkjubæjarklaustur. sunnlenska.is/Sigurður Hjálmarsson

Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur falið Söndru Brá Jóhannsdóttur, sveitarstjóra, að leita leiða til þess að tryggja að áfram verði rekin dagvöruverslun í sveitarfélaginu.

Verslun Kjarval á Kirkjubæjarklaustri verður lokað um áramótin og þurfa íbúar á Klaustri því að keyra 70 kílómetra til Víkur til þess að komast í næstu verslun.

Forsvarsmenn Kjarvals tilkynntu sveitarstjórn um fyrirhugaða lokun verslunarinnar síðastliðinn þriðjudag og í bókun sveitarstjórnar frá fundi í gær segir að það séu vonbrigði hversu stuttur fyrirvari sé gefinn. Ógerlegt sé að koma upp nýjum valkosti í matvöruverslun innan þessa tímaramma.

„Sveitarstjórn Skaftárhrepps getur ekki á nokkurn hátt stutt við eða talað fyrir lausnum sem skerða þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Slíkt rýrir samkeppnishæfni sveitarfélagsins sem ákjósanlegan búsetukost til framtíðar. Í ljósi þess að þúsundir manna fara um Skaftárhrepp á hverjum degi í eðlilegu árferði hlýtur staðsetning fyrir verslun á Kirkjubæjarklaustri að teljast fýsilegur kostur,“ segir í bókun sveitarstjórnar.

Fyrri greinAri Trausti hættir á þingi
Næsta greinSigtún þróunarfélag kaupir Landsbankahúsið á Selfossi