Vonbrigði með breytta nýtingu lóðarinnar

Hafnarstjórn Þorlákshafnar hefur samþykkt erindi Sláturfélags Suðurlands varðandi sameingu lóða félagsins við Hafnarskeið 10 og 12 og byggingu 3.000 fermetra húss til geymslu og umskipunar á tilbúnum áburði.

Í umsögn sinni lýsti hafnarstjórn reyndar yfir vonbrigðum sínum um breytt áform á nýtingu lóðarinnar en við upphaflega úthlutun lóðarinnar til SS var gert ráð fyrir að þar færi fram starfssemi sem kallaði á þó nokkur störf.

Að sögn Indriða Kristinssonar hafnarstjóra var lóðinni fyrst úthlutað til uppbyggingar á fóðurstöð en hér er um að ræða verðmæta lóð. Nú eru uppi áform að byggja geymsluhús til geymslu á tilbúnum áburði sem er ekki í takt við þau áform sem uppi voru áður. Hafnarstjórn telur því að þessi starfssemi sé betur komin í nágrenni hafnarinnar en við hafnarbakkann.

Hafnarstjórn er umsagnaraðili í málinu sem fer nú fyrir bæjarstjórn.