Vonbrigði að lausar íbúðir séu ekki leigðar

Bæjarráð Árborgar lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá afstöðu Íbúðalánasjóðs að bjóða ekki lausar íbúðir til leigu á almennum leigumarkaði en mikil eftirspurn er eftir leiguhúsnæði og skortur á slíku húsnæði.

Á bæjarráðsfundi í morgun var lagt fram tölvubréf frá Íbúðalánasjóði þar sem fram kemur að Íbúðalánasjóður muni ekki setja íbúðir í leigu á Selfossi.

Í bókun bæjarráðs segir að almennur vilji sé hjá stjórnvöldum og sveitarfélögum að leigumarkaður verði efldur og er þetta þvert á þá stefnu.

“Fullyrðingar um markaðsráðandi stöðu á leigumarkaði vekja furðu og óskar bæjarráð eftir tölulegum upplýsingum um málið og hversu margar íbúðir hafa verið auglýstar til leigu á svæðinu,” segir í bókuninni.