Vonast til að heimavist FSu komist inn á fjármálaáætlun

Fjölbrautaskóli Suðurlands. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Í fyrirspurnartíma á Alþingi í síðustu viku spurði Píratinn Andrés Ingi Jónsson Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hvernig ráðherra hyggðist tryggja framtíð heimavistar við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Árið 2020 var gerður samningur um heimavist á gistiheimili við Austurveg á Selfossi, sem rann út um síðustu áramót en hefur nú verið framlengdur. Andrés Ingi telur það ekki varanlega lausn að samnýta gistiheimili og spurði því ráðherra hver framtíð heimavistarinnar væri.

Heimavist FSu er við Austurveg 28 á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í svari ráðherra kom fram að búið sé að gera þriggja ára samning um heimavist í núverandi húsnæði við Austurveginn.

„En það er líka þannig að við gerum ráð fyrir framtíðarlausn fyrir heimavist á Fjölbrautaskóla Suðurlands og það verði byggð ný heimavist á lóð skólans. Það er hluti af framkvæmdaáætlun um kennsluhúsnæði í starfsmenntaskólum,“ segir Ásmundur en í þeirri áætlun er einnig gert ráð fyrir viðbyggingu við verknámshúsið Hamar og endurbótum á byggingjum garðyrkjuskólans á Reykjum.

„Þetta er eitt af því sem ég hef lagt áherslu á við vinnslu fjármálaáætlunar núna,“ bætti ráðherra við og sagði að hann bindi vonir við að verkefnið verði inni í endanlegri útgáfu fjármálaáætlunar.

„Það eru eilitlar breytingar sem við erum að óska eftir í millifærslum milli málefnaflokka og málefnasviða og […] gangi þær eftir þá erum við með þetta fjármagnað eins og staðan er í dag,“ sagði Ásmundur Einar.

Fyrri greinBaldur mætir á Selfoss á þriðjudag
Næsta greinFluttur með þyrlu eftir árekstur á Suðurlandsvegi