Vonast til að finna heitt vatn

Búið er að bora um 60 metra í leit að heitu vatni í landi Rangárþings eystra við Goðaland í Fljótshlíð. Borunum verður haldið áfram eftir áramót.

Það er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem sér um að bora tilraunaholuna fyrir sveitarfélagið.

Að sögn Hauks Jóhannessonar, jarðfræðings, er verið að kanna hvort mögulega reynist hitasvæði þarna undir.

„Ef þessi hola verður neikvæð tel ég ekki miklar líkur á að heitt vatn sé að finna á þessu svæði,“ segir Haukur. Byggir hann það á að búið sé að bora talsvert djúpar holur á Hvolsvelli í rannsóknarskyni, án árangurs.

Holan hefur verið fóðruð niður á umrædda 60 metra en þess er ekki þörf á meira dýpi. Miklu er til kostað, talsvert öflugri bor er notaður en venja er við tilraunaboranir, auk þess sem farið verður niður á allt að 200 metra dýpi. Alla jafna má fá heitt vatn á um 50 til 60 metrum.

Sveitarfélagið ber kostnaðinn af tilraunum þessum, en ef vel tekst til hafa bændur í grennd gefið til kynna að þeir hafi áhuga á að leita í löndum sínum víðar í Fljótshlíðinni.

Fyrri greinWeekends á toppi árslista Rásar 2
Næsta greinKjálkabraut einn og beit framan af nefi annars