Vonast til að ríkið endurgreiði skattinn af skólpinu

Ölfusá.

Kaup á hreinsunarbúnaði og frágangur á 1. stigs hreinsistöð er á fjárhagsáætlun næsta árs hjá Sveitarfélaginu Árborg. Bygging hreinsistöðvarinnar á að hefjast á næsta ári og búið er að velja henni staðsetningu.

„Þetta er vissulega talsverð fjárfesting en hún er til framtíðar,“ segir Eyþór Arnalds formaður bæjarráðs Árborgar um málið.

Ljóst er að sveitarfélagið þarf að greiða 25,5% virðisauka af aðföngum en fyrir nokkrum árum féll ríkið frá kröfu um slíkt til að greiða fyrir framkvæmdum í holræsaframkvæmdum.

„Þá gátu sum stærri sveitarfélög ráðist í þessar framkvæmdir en mörg önnur á landsbyggðinni gátu það einfaldlega ekki á þeim tíma,“ segir Eyþór. Hann telur réttlætismál að ríkið endurgreiði skattinn og „geri ekki holræsin að féþúfu,“ eins og hann orðar það.

Fyrri greinBúið að opna Suðurlandsveg
Næsta greinFjölgun nemenda og frágangur skóla