Vona að nýir sófar leiði til bættrar umgengni í skólanum

Tíu nýir sófar eru komnir í hús í Fjölbrautaskóla Suðurlands og er vonast til að umgengni í skólanum batni til muna við þessar breytingar.

Í frétt á heimasíðu skólans segir að vonast sé til að þessar nýju mublur verði gleðigjafar, nemendum til hægðarauka og þæginda við nám og störf. Umgengni hefur verið nokkuð ábótavant við eldri mublur og ef umgengni við nýju sófana verður ekki í lagi þá verða þeir teknir úr umferð.

Í fréttinni segir að umgengni um skólann sé almennt ekki góð og ræstitæknar skólans hafa orð á því oft í viku hvað umgengni hefur hrakað, matarklessur víða og almennt virðingarleysi gagnvart eigum skólans.

Það er þekkt að fallegt umhverfi virkar vel á fólk og því biðla skólastjórnendur til nemenda að vanda sig í umgengni við veraldlega hluti sem og hver við annan.

Fyrri greinVegan og glútenfrí pizza
Næsta grein„Ég er bara Daði“