Von á hlaupvatni í byggð á fimmtudaginn

Skaftárhlaup er hafið úr Eystri-Skaftárkatli. Í gær leit út fyrir að vatn væri að renna frá katlinum og mælingar á íshellunni sýna að hún er að lækka. Ekki er búist við að vart verði við hlaupið í byggð fyrr en á fimmtudaginn.

Hlaup úr eystri katlinum eru stærri og sjaldnar en hlaup úr þeim vestari. Síðast hljóp úr katlinum í júní 2010.

Snorri segir að mælitæki Veðurstofunnar sýni að íshellan hafi farið að síga á miðnætti aðfaranótt sunnudags.

„Í nótt jókst sigið mjög hratt. Það þýðir að það er farið að renna úr katlinum og það eru 40 km frá katlinum að jökuljaðri og síðan eru 20 km í farveginum niður að efsta mæli við Sveinstind. En það er ekki farið að sjást nein vísbending þar um hlaup,“ sagði Snorri Zóphóníasson, hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við RÚV. Það sé þó nokkuð ljóst að hlaup sé hafið. „Já, fyrst íshellan sígur, og svona stór fleki, þá er það talið vera.“

Snorri segir að fólk ætti að halda sig fjarri jökuljaðrinum. „Það er eitt af því sem þarf að varast. Þeir sem eru nærri upptökunum ættu ekki að vera þar. Það er svo mikið af brennsteinsgufum þar að það er hættulegt.“

UPPFÆRT Kl. 16:00: Búast má við að hlaups verði vart við Sveinstind seint á miðvikudag eða fimmtudag. Íshellan lyftist ekki hærra nú en áður hefur orðið þrátt fyrir mun lengra hlé milli hlaupa. Hugsanlegt er að ketillinn sé víðari og rúmi því meira vatnsmagn og afleiðingarnar væru vatnsmeira hlaup. Lengsta hlé sem áður hefur orðið milli hlaupa úr þessum katli var 36 mánuðir. Þá kom mjög vatnsmikið hlaup með miklu hámarksrennsli.

Fyrri greinÚrslitaleikir hjá Þór og FSu í kvöld
Næsta greinHagnaður Ker­fé­lags­ins fjór­fald­ast