Vörur læstar inni og reikningar ekki greiddir

Rekstri sveitamarkaðsins á Hvolsvelli, sem hefur verið starfræktur í gömlu bröggunum á staðnum hefur verið hætt. Eftir því sem heimildir Sunnlenska segja eiga allnokkrir aðilar vörur í húsnæðinu og aðrir ekki fengið greitt fyrir sína vöru.

Sem dæmi sendi handverkssali inn vörur til útsölu í bragganum í fyrravor fyrir um 750 þúsund krónur, en fékk aðeins greiddar um 50 þúsund krónur um mitt sumarið.

„Það er sárt að fá ekki greitt og að vita ekki hvar vörurnar mínar eru,“ sagði umræddur handverkssali, en vildi ekki láta nafns síns getið. Hann hafði vissulega velt því fyrir sér eftir að hafa sent inn meiri vöru hvort hún fengist nokkurn tíma borguð. „Það var hinsvegar fullyrt við mig að taslvert hefði selst frá mér og því var óskað eftir meiri vöru.“

Rekstraraðilinn, Ásbjörn Jensen, sem á sínum tíma tók við rekstrinum býr erlendis og hefur haft aðra aðila á sínum snærum til að sjá um reksturinn fyrir sig. Ekki náðist í Ásbjörn við vinnslu fréttarinnar en fulltrúi sveitarfélagsins segir hann munu hætta rekstrinum.

„Þar sem hann býr ekki á staðnum þá er erfitt að halda úti svona markaði og hefur hann því tekið ákvörðun um að hætta rekstri,“ segir Árný Lára Karvelsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi l Rangárþings eystra í samtali við Sunnlenska.

Sveitarfélagið á húsnæðið en Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri segir leiguskuld ekki mikla þar sem hún hafi verið tengd veltu.

Fyrri greinMarín Laufey Íslandsmeistari
Næsta greinLista upp eignir og huga að sölu