VMS skorar á stjórnvöld að auka fjármagn til HSU

Aðalfundur Verslunarmannafélag Suðurlands, sem haldinn var í gær, hvetur stjórnvöld til að auka verulega fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands vegna aukinna verkefna.

Gífurleg fjölgun verkefna hefur átt sér stað í heilbrigðisumdæmi Suðurlands, en ný sameinuð stofnun HSU þjónar nú yfir 30.000 ferkílómetra svæði frá Hellisheiði til Hafnar í Hornafirði.

Í ályktun fundarins segir að nú sé svo komið að tekjur hins opinbera til sjúkraflutninga á Suðurlandi duga engan veginn til að reka svo umfangsmikla starfsemi. Fjárframlög til rekstrarins eru á engan hátt í samræmi við þá hröðu aukningu sem hefur orðið í sjúkraflutningum á Suðurlandi. Vegna niðurskurðar og hagræðingar síðustu ára gefa óbreytt fjárframlög til HSU ekkert svigrúm til að bæta við inn í rekstur sjúkraflutninga af tekju HSU frá hinum opinbera nema að skera niður í almennri grunnheilbrigðisþjónustu sem stofnuninni ber lagaleg skylda til að veita.

Frá árinu 2011 til 2015 hafði heildarfjöldi sjúkraflutninga vaxið alls um 46% .Fjöldi bráðaútkalla hafi vaxið um 88% og vegalengd ekinna kílómetra á sjúkrabílum jókst um 89%, aðallega vegna erlendra ferðamanna sem slösuðust á hálendinu.

Einnig er algjör sprenging í komum á bráðamóttöku á Selfossi, en 528 fleiri sjúklingar komu á bráðamóttökuna á fyrstu þremur mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra. Það jafngildir 25% aukningu á bráðamóttökunni.