Vitnisburður viðskiptaráðherra

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrum viðskiptaráðherra og fyrsti þing­maður Suðurkjördæmis, er þessa dagana að leggja lokahönd á bók um efnhagshrunið, afleiðingar þess og orsakir.

Bókin kemur út í október og er líkleg til að vekja mikla athygli þar sem um er að ræða fyrstu bókina sem skrifuð er af ráðherra úr þáverandi ríkisstjórn og raunar ein fárra bóka sem íslenskir stjórnmálamenn hafa skrifað um pólitík á síðari árum.

Björgvin hóf að skrifa bókina fyrr í sumar þegar ljóst var að biðin eftir að þingmannanefndin sem fer yfir skýrslu Rannsóknarnefndar yrði heldur lengri en upp var lagt með.

„Ég vatt mér í þetta verkefni sem hafði blundað í mér að fara í síðasta árið eða svo. Mig hefur alltaf langað að skrifa meira og bókarskrif hafa lengi blundað í mér. Svo varð maður fyrir þessari miklu reynslu og upplifði margt sem á erindi áður en það gleymist,“ sagði Björgvin í samtali við Sunnlenska.

Björgvin segir ekki vanta frásagnarefni til slíkra skrifa. „Nei, það er allavega frá miklu að segja það er ljóst og gæti ég fyllt nokkrar bækur ef því er að skipta. Því þurfti ég að takmarka mig og einblína á ákveðna þætti,“ segir Björgvin. „Þetta er fyrst og fremst frásögn af minni upplifun á atburð­un­um en ekki sagnfræðileg greining á þeim,“ segir hann.