Vitaleiðin er ný ferðaleið á Suðurlandi

Vitaleiðin var kynnt á fundi á Stað á Eyrarbakka í gær. Ljósmynd/Sveitarfélagið Árborg

Markaðsstofa Suðurlands hefur kortlagt nýja ferðaleið á Suðurlandi í samstarfi við sveitarfélögin Árborg og Ölfus.

Leiðin ber nafnið Vitaleiðin og er hún 45 km leið sem nær frá Selvogi í vestri að Knarrarósvita við Stokkseyri í austri. Nafngiftin er dregin af vitunum sem marka leiðina þ.e Selvogsvita, Hafnarnesvita og Knarrarósvita.

Vitaleiðin var kynnt í vikunni en formleg opnunarhátíð verður laugardaginn 15. ágúst næstkomandi. Þangað til eru Íslendingar hvattir til að ferðast um leiðina, hvort sem er gangandi, hlaupandi, ríðandi, hjólandi eða akandi og njóta þeirra fjölbreytni sem leiðin bíður upp á í mat, menningu, náttúru og sögu.

Vitaleiðin býður upp á þá skemmtilegu fjölbreytni að ferðalangar geta ekið hana, gengið meðfram strandlengjunni eða jafnvel hjólað. Á Vitaleiðinni eru þrjú þorp við sjávarsíðuna; Þorlákshöfn, Eyrarbakki og Stokkseyri, sem hvert hefur sína sérstöðu og sögu. Vitaleiðin býður upp á fjölbreytta ferðamöguleika sem hægt er að njóta á einum eða fleiri dögum.

Þórarinn Gylfason, grafískur hönnuður í Þorlákshöfn, hannaði skiltið fyrir Vitaleiðina og verða sex slík skilti sett upp á leiðinni.

Hægt er að skoða upplýsingar um Vitaleiðina hér.

Mynd/Þórarinn F. Gylfason
Fyrri greinStokkseyri tapaði fyrir Birninum
Næsta greinTómas kaupir Messann