Vísindamenn funda um goslok

Vísindamannaráð Almannavarna fundar í dag um hvort ástæða sé til að lýsa því yfir að eldgosinu í Eyjafjallajökli sé lokið.

Vísindamenn hafa ekki verið tilbúnir að afskrifa eldgosið en í alþjóðlegum eldfjallafræðum er gjarnan notað það viðmið að eldstöð þurfi að vera án virkni í samfellt þrjá mánuði til að eldgosi teldist lokið.

Nú eru rúmir þrír mánuðir síðan síðast varð vart við eldsumbrot í toppgíg Eyjafjallajökuls en talið er að síðasta virkni hafi verið þar dagana 6. og 7. júní. Vísindamannaráð Almannavarna fundar í dag og meginumræðuefnið er staðan í Eyjafjallajökli og hvort ástæða sé til að lýsa yfir goslokum.

Einnig verður rætt um hvort endurskoða þurfi bannsvæðið, sem enn er formlega í gildi gagnvart ferðalögum á Eyjafjallajökul. Þótt lýst verði yfir goslokum þykir líklegt að áfram verði í gildi bann að einhverju marki enda valda þykk öskulög á jöklinum því að áfram eru taldar líkur á hættulegum eðjuflóðum.

Vísir greindi frá þessu.

Fyrri greinEru að hefja verk í Úganda
Næsta greinMissti stjórnina í fóðurkorni