„Virtist undrandi á mannaferðum“

„Það leit á mig og virtist hugsa hvern fjandann ég væri að gera þarna,“ segir Grétar Einarsson í Þórisholti í Mýrdal sem fann og náði í lamb við erfiðar aðstæður, efst í vesturhlíðum Reynisfjalls í síðustu viku.

Lambið reyndist vera frá nágrönnum hans á Reyni.

Grétar lýsti aðstæðum þannig að mesta frostið væri farið úr hlíðunum þannig að hann gat komist þar upp, fyrst á fjórhjóli og svo síðasta spölinn gangandi á gaddajárnuðum skóm.

„Það hafði verið þarna yfir harðgaddaður snjór og engin leið að fara um enda hengiflug undir en nú komst ég þetta loks,“ segir Grétar.

Hann segir menn hafa vitað af lambinu þarna í hlíðinni um nokkurn tíma. „Það hafði samt eitthvað að kroppa þarna í fjallinu og var ekki illa haldið,“ segir hann.

Grétar segist af og til líta eftir fé á þessum slóðum, enda afréttur í Mýrdalnum víða erfiður og þar vandsmalað. „Hann skilar sjaldnast öllu,“ segir Grétar.

Fyrri greinBorgarverk bauð lægst í Tryggvagötuna
Næsta greinGestirnir sterkari í Frystikistunni