Virkjunin verður vöktuð í nótt

Betur fór en á horfðist eftir að eldur kom upp í loftræsibúnaði Hellisheiðarvirkjunar laust fyrir hádegi í dag. Slökkvistarfi lauk síðdegis en Brunavarnir Árnessýslu verða með vakt við bygginguna í nótt.

Að sögn Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa Orku náttúrunnar, er ekki útlit fyrir að verulegt tjón hafi orðið á framleiðslubúnaði virkjunarinnar og að sá búnaður sem sló út eða slökkt var á í dag skili fullum afköstum um eða eftir helgi. Jarðhitasýning Orku náttúrunnar, sem starfrækt er í virkjuninni, verður þó lokuð fram á mánudag, að minnsta kosti.

„Engan sakaði og reglulegar æfingar starfsfólks í virkjunum Orku náttúrunnar með Brunavörnum Árnessýslu og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins skiluðu sér í markvissum viðbrögðum við eldinum. Eftir að eldurinn hafði verið slökktur tóku reykkafarar að ganga úr skugga um að ekki leyndust glæður milli þilja og stóð það starf fram á fimmta tímann,“ segir Eiríkur.

Neyðarlínan fékk tilkynningu um eldinn klukkan 11:26 í morgun en ekki er vitað um upptökin hans. Þegar slökkviliðsmenn mættu á vettvang skíðlogaði upp úr þaki hússins. Eldurinn logaði í um tvo tíma í loftræstibúnaði og þaki miðhluta stöðvarhússins, þar á meðal þakpappa sem gaf frá sér talsverðan reyk.

Einni af sex háþrýstivélum Hellisheiðarvirkjunar sló út skömmu eftir að eldsins varð vart en engin tengsl hafa þó enn sést þar á milli. Í öryggisskyni var hinsvegar ákveðið að slökkva á lágþrýstivél virkjunarinnar og varmastöð áður en slökkvistarf hófst.


Þegar slökkviliðsmenn mættu á vettvang skíðlogaði upp úr þaki hússins. Ljósmynd/Viðar Arason

Fyrri greinJana Lind og Stefán skjaldarhafar Bergþóru og Skarphéðins
Næsta grein221 HSK met sett á síðasta ári