„Virkilega góðar fréttir fyrir allt Suðurland“

„Þetta eru virkilega góðar fréttir fyrir Þorlákshöfn og fyrir allt Suðurland. Vonandi er þetta bara upphafið að því að gera Þorlákshöfn að miðstöð vöruflutninga,“ segir Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri í Ölfusi.

Færeyska skipafélagið Smyril Line Cargo, sem á og rekur farþega- og vöruflutningaferjuna Norrænu, tilkynnti í morgun að vöruflutningaferja muni hefja beinar siglingar milli Þorlákshafnar og Rotterdam í byrjun apríl 2017.

Sjá nánar: Smyril Line Cargo hefur vikulegar siglingar milli Þorlákshafnar og Rotterdam

„Við höfum unnið að því síðustu ár að gera Þorlákshöfn hæfa og með þeim áfanga endurbóta sem nú er í gangi verður hún tilbúin til að taka á móti skipinu í vor. Það er frábært að hafa fengið öflugan samstarfsaðila sem þekkir samfélagið vel, þekkir siglingaleiðina vel og er vanur krefjandi aðstæðum,“ segir Gunnsteinn bæjarstjóri ennfremur.

„Umsvif við höfnina munu stóraukast og ljóst að störfum mun fjölga í sveitarfélaginu, bæði beint og óbeint, en við erum vel í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem ferjusiglingarnar hafa í för með sér.“

Miklar breytingar hafa verið gerðar á höfninni í Þorlákshöfn á undanförnum árum til að skapa betri aðstæður fyrir hafsækna starfsemi og frekari framkvæmdir eru á döfinni. Höfnin hefur m.a. verið dýpkuð til muna og byggð verður upp aðstaða til að taka á móti stórum flutningaskipum. Fullbúin frystigeymsla er staðsett við höfnina og þar er mikið landrými og lausar byggingalóðir fyrir atvinnustarfsemi. Frá Þorlákshöfn eru góðar og greiðar samgöngur til allra átta og aðeins um 40 km til Reykjavíkur og 85 km að Keflavíkurflugvelli eftir Suðurstrandarvegi.

Í tilkynningu frá Smyril Line segir að ferjusiglingarnar muni stórauka umsvif í Þorlákshöfn en flutningstíminn milli Þorlákshafnar og Rotterdam verður sá stysti sem boðið verður upp á í sjóflutningum milli Íslands og Evrópu.