„Virðist hafa sloppið vel“

Vík í Mýrdal. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Kórónuveiruhópsmitið í Mýrdalshreppi virðist vera nokkuð einangrað og ekki hefur þurft að senda marga í sóttkví.

Eins og sunnlenska.is sagði frá fyrr í dag mátti rekja fimm af sex kórónuveirusmitum sem greindust utan sóttkvíar á landinu í gær til hópsmits í Mýrdalshreppi.

„Þetta virðist hafa sloppið vel og rakningarteymið virðist ekki vera að senda marga í sóttkví. Þeir smituðu búa einangrað og hafa ekki hitt marga,“ sagði Elín Freyja Hauksdóttir, umdæmislæknir sóttvarna á Suðurlandi, í samtali við sunnlenska.is.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi tengist fólkið í gegnum vinnu.

„Það hafa verið tekin nokkur sýni frá einstaklingum sem fólkið hefur umgengist á einhvern máta og það má búast við niðurstöðu úr því í kvöld eða á morgun,“ sagði Elín Freyja ennfremur.

Nú eru fjórtán manns í einangrun á Suðurlandi vegna COVID-19, sex í Mýrdalshreppi og átta á Selfossi. Fimm eru í sóttkví á Suðurlandi og 66 í skimunarsóttkví eftir skimun á landamærunum.

Fyrri greinMerkileg kvikmynd frá Laugarvatni
Næsta greinIngveldur Anna býður sig fram