Vinsæll vatnskrani í Krónunni í Vík

Glæsilegur vatnskrani Krónunni í Vík. Von er á fleiri Krónukrönum í öðrum verslunum um allt land. Ljósmynd/Aðsend

Í verslun Krónunnar í Vík í Mýrdal hefur verið settur upp svonefndur Krónukrani sem er sérmerktur vatnskrani þar sem viðskiptavinir sem vilja svala þorstanum og fylla á fjölnota brúsa geta sótt sér kalt og ferskt vatn.

Þetta er fyrsti Krónukraninn sem settur er upp en Krónan hyggst halda þessu áfram og setja upp krana í fleiri verslunum fyrirtækisins. Þetta er í samræmi við óskir viðskiptavina Krónunnar sem vilja aðgang að umhverfisvænum og umbúðalausum drykkjarkostum.

„Framtakið kom til vegna fyrirspurna frá viðskiptavinum um hvort hægt væri að setja upp vatnskrana í verslunum Krónunnar. Við erum alltaf þakklát fyrir slíkar ábendingar frá viðskiptavinum, ákváðum að slá til enda samræmist verkefnið lýðheilsu- og umhverfisstefnu Krónunnar. Ákveðið var að byrja í Vík þar sem margir eiga leið um, sérstaklega ferðamenn. Við vildum hafa kranann vel aðgengilegan þannig að sem flestir gætu nýtt tækifærið og fengið sér þetta frábæra vatn sem við Íslendingar eigum. Það hefur sína sérstöðu á heimsvísu og um að gera að sem flestir fái að njóta þess, um leið og við drögum úr notkun einnota plastumbúða,“ segir Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, um kranann í Vík.

Um 5.000 lítrar fyrstu mánuðina
Hún segir kranann hafa fengið góðar viðtökur og mikil ánægja með að hafa hafið vegferðina í Vík enda sé kraninn mikið notaður, af bæði ferðamönnum og bæjarbúum.

„Kraninn var settur upp í júlí og hafa um 5.000 lítrar af vatni farið í fjölnotabrúsa síðan þá og verður spennandi að fylgjast með þróuninni,“ segir Ásta enda vilji Krónan einfalda viðskiptavinum sínum að nýta umhverfisvænni kosti.

Fyrri greinGul viðvörun: Slæmt ferðaveður á Suðausturlandi
Næsta greinAndlát: Einar Elíasson