Vinnuhópurinn tekinn til starfa

Vinnuhópur sem fara á yfir verklag Grunnskólans í Hveragerði í eineltismálum hefur tekið til starfa. Hefur hópurinn þegar hist tvisvar og átt viðtöl við fjölmarga einstaklinga.

Í fréttatilkynningu frá bæjaryfirvöldum í Hveragerði segir að hlutverk vinnuhópsins sé að meta vinnuferla starfsmanna í því einstaka máli sem mest hefur verið til umfjöllunar að undanförnu, gera úttekt á verklagi og vinnuferlum starfsmanna Grunnskólans í Hveragerði eineltismálum og gefa álit og koma með tillögur til úrbóta ef þurfa þykir vegna meðferðar eineltismála í skólanum.

Þá mun hópurinn miðla niðurstöðum til starfsmanna skólans og skólasamfélagins að loknu starfi hópsins en að líkindum mun vinnuhópurinn skila af sér fyrir lok apríl.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri sagði í samtali við Sunnlenska að hópurinn hafi unnið mjög hratt og vel og nú þegar tekið viðtöl við fjölda aðila.

Hópurinn er skipaður þeim Þorláki Helgasyni, sérfræðingi Olweusar eineltisáætlunarinnar, Kristínu Hreinsdóttur, forstöðumanns Skólaskrifstofu Suðurlands, Ragnari S Ragnarssyni, sálfræðingi og Ólafi Jóhannessyni, lektor við Háskóla Íslands.

Fyrri greinRáðlagður mánaðarskammtur af gleðistraumum
Næsta greinAukning í vörupökkun á Selfossi