„Vinnubrögðin ráðuneytinu til skammar“

„Við munum ekki skrifa undir þessa samninga eins og þeir koma frá ráðuneytinu,“ segir Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri SASS, um menningarsamning Suðurlands.

Samningurinn er í uppnámi þar sem SASS telur tillögur um úthlutun fjármuna vegna samningsins ekki standast skoðun. Samkvæmt tillögu menntamálaráðuneytisins lækkar framlag ríkisins til menningarmála á svæði SASS um tíu milljónir króna á ári frá því að fyrri samningur var gerður, eða úr 36 milljónum í 26 milljónir.

Þetta gerist þrátt fyrir að sveitarfélagið Hornafjörður sé nú hluti SASS en var innan menningarsamningsins á Austurlandi þar til um síðustu áramót. Eftir því sem næst verður komist er framlag á Austurland 3-4 milljónum hærra en á Suðurland þrátt fyrir að um 26 þúsund manns falli undir svæði SASS á meðan tæplega 11 þúsund manns búi á Austurlandi.

„Við höfum mótmælt þessu harðlega en ekki fengið nein svör frá ráðuneytinu,“ segir Þorvarður. Hann segir vinnubrögðin ekki sæmandi ráðuneyti, ekki sé hægt að greina á neinn hátt við hvað sé miðað við úthlutun þessara fjármuna.

Nýr samningur átti að taka gildi um síðustu áramót og landshlutasamtök sveitarfélaga lögðu áherslu á að samningarnir yrðu gerðir tímalega og búið væri að gera grunninn að samningum við þau þó svo að endanlegar niðurstöður um heildarframlög á fjárlögum lægju ekki fyrir. Ráðuneytið sendi engar tillögur fyrr en langt var liðið á janúarmánuð sem sveitarstjórnarmönnum finnast heldur fálmkenndar. Í þeim séu engar reglur eða viðmið um hvernig framlögin skiptist á milli landshluta.

SASS hefur ítrekað óskað eftir viðræðum við ráðuneytið vegna þessa án árangurs, raunar hefur erindi samtakanna ekki verið svarað.

Fjármunirnir sem um ræðir í samningum fara í starfsemi menningarfulltrúa á Suðurlandi og til styrkveitinga á menningarverkefnum. „Menningarsamningurinn er til mikilla bóta í héraðinu og kemur í staðinn fyrir mjög tilviljunarkennd framlög úr fjárlaganefnd,“ segir Þorvarður. Nú sé enginn samningur í gildi og greiðslur vegna hans berast ekki. „Það gengur auðvitað ekki til lengdar,“ segir hann.