Vinnubrögðin ekki í samræmi við fögur fyrirheit

Bæjarfulltrúar S-listans í bæjarstjórn Árborgar segja bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins stunda gamaldags vinnubrögð við fjárhagsáætlunargerð ársins 2014.

Fjárhagsáætlunin var tekin til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í vikunni og þar létu Arna Ír Gunnarsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, bóka að vinnubrögð sjálfstæðismanna væru í engu samræmi við fögur fyrirheit um samstarf þvert á flokka.

„Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2014 kusu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins að vinna áætlunina einir og án nokkurrar aðkomu bæjarfulltrúa minnihlutans. Það á þó ekki við um vinnu við gerð fjárfestingaráætlunar, þar sem góð samvinna var í framkvæmda og veitustjórn við gerð fjárfestingaráætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2014. Svo virðist sem sú nefnd hafi verið eina fagnefnd sveitarfélagsins sem hafði eðlilega aðkomu að fjárhagsáætlunargerð síns málaflokks,“ segir í bókun Örnu og Eggerts.

„Þetta eru gamaldags vinnubrögð og í engu samræmi við fögur fyrirheit meirihlutans um samstarf þvert á flokka í bæjarstjórn. Slík vinnubrögð eru á engan hátt til þess fallin að ná fram bestum mögulegum árangri í rekstri sveitarfélagsins,“ segja þau Arna og Eggert ennfremur en þau hyggjast skoða fjárhagsáætlunina vel á milli fyrri og seinni umræðu og leggja fram breytingartillögur eftir því sem efni standa til.

Fyrri greinVilja að þingmenn standi við stóru orðin
Næsta greinKvennalið Selfoss fékk Hauka