Vinnubrögð við almenningsgarð gagnrýnd

„Okkur þykir sjálfsagt mál að talað sé við alla aðila í sveitarfélaginu sem geta sinnt slíkum verkum en ekki bara suma.

Við störfum hér í umboði allra íbúa Hrunamannahrepps og verðum að gæta þess að mismuna ekki aðilum,“ segir í bókun minnihluta hreppsnefndar Hrunamannahrepps sem gagnrýnir vinnubrögð starfshóps um uppbyggingu almenningsgarðs á Flúðum í sumar.

Starfshópurinn hafði bókað að ekki hafi verið hægt að fá verktaka til starfa í sumar vegna anna hjá þeim. Minnihluti hreppsnefndar segir hins vegar að ekki hafi verið talað við verktakana Flúðaverk ehf. og Árna ehf. sem hefðu getað sinnt verkinu ef eftir því hefði verið leitað.

„Þetta var nú bara minni háttar verk sem fól í sér jarðvegsskipti, færa til tré og stígagerð og er búið að framkvæma núna,“ segir Jón Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, í samtali við Sunnlenska. „Þetta er nú bara smámál sem auðvelt var að vinna.“