Vinna að deiliskipulagi á Gaddstaðaflötum

Á síðasta fundi hreppsnefndar Rangárþings ytra var samþykkt tillaga Á-listans um að unnið verði deiliskipulag á landi sveitarfélagsins á Gaddstaðaflötum.

Landsmót hestamanna verður haldið á Gaddstaðaflötum árið 2014. Ráðist er í gerð deiliskipulagsins til að hægt sé að vinna skipulega að uppbyggingu á svæðinu og til að skapa fallega umgjörð um það. Gera þarf ráð fyrir útivistarsvæði fyrir íbúa, hesthúsabyggð og aðstöðu fyrir mótshald og hátíðir.

Á vef sveitarfélagsins kemur fram að skipulagsleysi hafi komið í veg fyrir uppbyggingu hesthúsa á Hellu og hafa lóðir ekki verið lausar til úthlutunar í mörg ár. Með deiliskipulagi skapast grundvöllur fyrir að taka slík mál upp og er það nauðsynlegt þar sem margir hafa atvinnu af hestamennsku í sveitarfélaginu og helstu knapar landsins eru meira eða minna búsettir á Suðurlandi.

Fyrri greinSkoða stórfelldan jarðefnaútflutning
Næsta greinFjórða mótið í kvöld