Vindsnúnar snjórúllur um allar jarðir

Í blindbyl síðdegis í gær hefur vindurinn rúllað snjónum upp í fjölda snjóbolta á túnum og ökrum undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum.

Þetta fyrirbrigði er ekki mjög algengt en verður stundum til við ákveðnar aðstæður, einkum í halla. Hallanum er þó ekki fyrir að fara á flatlendinu hér sunnanlands.

Í fróðleikspistli á vef Veðurstofunnar er fyrirbrigðið kallað vindsnúin snjórúlla, en sumir hafa kallað þetta snjóveltu og er fyrirbrigðið fyrir köldum vetri.

Stærstu rúllur eða kúlur af þessu tagi sem getið er um í gögnum Veðurstofunnar urðu til í Selskarði á Rangárvöllum 5. febrúar 1956. Þær voru um einn metri að þvermáli, eða á stærð við heybagga.

Óli Hilmar Briem lætur þess getið í bréfi til Veðurstofunnar árið 2010 að fyrirbrigðið hafi sums staðar verið kallað skotta, nafnið þá líklega dregið af „halanum“ sem þessar rúllur mynda. Í þjóðtrúnni hafi skottur þótt ills viti veðurfarslega og spáð frekari stórviðrum.

Myndina hér að neðan tók Birna Viðarsdóttir á hlaðinu við Norður-Hvol í Mýrdal í gær. Stærsta rúllan sem er fremst á myndinni er 70 sm á hæð og 85 sm á breidd, og segist Birna aldrei áður hafa séð svona sjálfrúllandi snjókarla áður.


Stærsta snjórúllan við Norður-Hvol er 85 sm þar sem hún er breiðust. sunnlenska.is/Birna Viðarsdóttir


Það er alltaf fallegt að líta heim að Skógum, og snjórúllurnar setja skemmtilegan svip á umhverfið. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir