Vindmyllurnar vandmeðfarnar

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur vísað til skipulags- og byggingarnefndar máli er snertir breytingu á landnotkun vegna áhuga á að reisa tvær vindmyllur í landi Vorsabæjar á Skeiðum.

Um er að ræða allháar vindmyllur sem eru í eigu Steingríms Erlingssonar. Málið var rætt á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku og er nokkuð umdeilt, bæði innan sveitar og sveitarstjórnar.

Á fundinn mættu tveir eigendur sumarhúsa í grennd við fyrirhugaðar vindmyllur sem hafa lagt fram kröftug mótmæli við því að þær verði reistar á umræddum stað.

Málið er flóknara en svo að hægt sé að samþykkja eða hafna, að baki verði að vera rökstuðningur, þar sem ekki hafi áður verið óskað eftir því að reisa slíkar vindmyllur í byggð, að mati Skafta Bjarnasonar oddvita. Hann sagðist í samtali við Sunnlenska telja nauðsynlegt að fá umsögn þeirra nágrannabyggða sem málið snertir í ljósi þess að vindmyllur þessar muni hið minnsta sjást ofan úr Hrunamannahreppi og vestan úr Grímsnesi.

„Áhrifin eru bæði sjónræn og hljóðræn,“ segir Skafti en nauðsynlegt sé að fá álit nágranna útaf sjónrænum áhrifum. Honum finnst jafnframt vanta að mótaðar séu samræmdar reglur um mannvirki af þessum toga. „Því er ágætt fyrsta skref að láta fagnefnd fjalla um málið,“ segir Skafti.

Í umræðum um málið í sveitarstjórn lét Gunnar Örn Marteinsson bóka að sér þætti ekki ásættanlegt að breyta landnotkun í þá veru sem sótt hafi verið um vegna sjónrænna áhrifa af framkvæmdinni. Hann telji því að hafna beri beiðni um breytingu á aðalskipulagi.

Fyrri greinGóður sigur Selfyssinga í Hafnarfirði
Næsta greinSkemmtun og sköpunargleði á Flúðum