Vilt þú starfa með öflugri hjálparsveit?

Nýliðakynning Hjálparsveitar Skáta Hveragerði verður í kvöld, þriðjudagskvöld kl. 20 í húsi sveitarinnar að Austurmörk 9.

Hefur þú áhuga á að klifra upp á fjöll í brjáluðu veðri? Hefur þú áhuga á að hjálpa öðrum? Hefur þú áhuga á útivist? Hefur áhuga á jöklaferðum? Ísklifri? Klettaklifri? Jeppum? Vélsleðum ? Flugeldasýningum? Fyrstu hjálp? Fjallgöngum? Skálaferðum? Fjarskiptum og tölvum? Viltu vera hluti af fjölbreyttum hópi sem deilir þessum sameiginlegu áhugamálum?

Ef svo er gætir þú átt erindi í Hjálparsveit Skáta Hveragerði. Hjálparsveitin skorar á alla bæði konur og karla, 16 ára og eldri til að mæta á nýliðakynninguna og taka þátt í starfi sveitarinnar.

Hjálparsveit Skáta Hveragerði var stofnuð 23. september 1975 og fagnaði því 35 ára starfsafmæli á síðasta ári. Tilgangur HSSH er að vinna að björgun manna og/eða verðmæta og veita hvers konar aðstoð í neyðartilvikum, þar sem tæki og þekking HSSH getur komið að notum, og taka þátt í skipulögðu almannavarnarstarfi.

Starf sveitarinnar er þó langt frá því að einskorðast við björgunarstörf við krefjandi aðstæður, heldur er það staðreynd að svona félagsskapur getur ekki starfað án þess að hafa gott bakland. Þess vegna er ekki bara verið að leita eftir fólki til að standa í fremstu víglínu heldur vantar einnig fólk til að starfa á bakvið tjöldin.