Villtust við Landmannalaugar

Mynd úr safni. Ljósmynd/Björgunarfélag Árborgar

Í gærkvöldi barst Neyðarlínunni símtal frá tveimur ferðamönnum sem töldu sig í villum milli Landmannalauga og Hrafntinnuskers. Símtalið barst um áttaleitið og á staðsetningargögnum var ljóst að síminn var á ferð að Landmannalaugum.

Björgunarsveitir víða að af Suðurlandi voru boðaðar til leitar ásamt því að skálaverðir í Landmannalaugum ásamt björgunarsveitarmanni sem þar var, gengu frá Laugum í átt að Hrafntinnuskeri. Á svæðinu var hægur vindur en þoka og rigning.

Klukkan hálf ellefu gengu björgunarsveitir fram á tvo ferðamenn sem lýsingin gat átt við en þeir voru þá ekki langt frá skálanum í Landmannalaugum og höfðu verið á göngu í kringum Laugar yfir daginn og um tíma verið komin langleiðina í Hrafntinnusker.

Björgunarsveitum var þá snúið við, þeim sem ekki voru komnar á staðinn, sem og þyrlu Landhelgisgæslunnar sem hafði verið boðuð út með búnað til að miða út símtæki. Aðgerðum lauk því farsællega og voru björgunarsveitir að koma í bækistöðvar sínar um miðnættið.

Fyrri greinEva og Björgey afgreiddu ÍH
Næsta grein„Risaskref fyrir okkur og samfélagið hér“