Villtist við Úlfárdalssker

Mynd úr safni. Ljósmynd/Kyndill

Rétt eftir miðnætti voru björgunarsveitirnar Kyndill á Kirkjubæjarklaustri og Stjarnan úr Skaftártungu kallaðar út vegna göngumanns sem var á göngu við Úlfárdalssker og hafði villst á leið sinni.

Símasamband var við göngumanninn en rafhlaða hans var við það að tæmast. Nákvæm staðsetning fékkst ekki en hægt var að áætla að viðkomandi væri við Úlfárdalssker, sem eru suður af Lakagígum.

Veður á leitarsvæðinu var ágætt, en þoka var að leggjast yfir og einhver suddi.

Rétt upp úr klukkan 2 í nótt kom björgunarsveitarfólk auga á ljóstýru og skömmu síðar var ljóst að þar væri göngumaðurinn á ferð. Tuttugu mínútum síðar var hann kominn í björgunarsveitarbíl og þáði far að bíl sínum og í kjölfarið fylgdi björgunarsveit honum að skála þar nærri. Manninum heilsaðist vel og björgunarsveitir héldu heim á leið á fjórða tímanum í nótt.

Fyrri greinSigríður ráðin skipulagsfulltrúi
Næsta greinDóra & Döðlurnar í Eyvindartungu