Vill virkjanir í Þjórsá

Bæjarráð Árborgar vill að Alþingi setji Hvamms- og Holtavirkjanir í Þjórsá í nýtingarflokk í Rammaáætlun um nýtingu og vernd náttúrusvæða.

Þetta var samþykkt á síðasta fundi ráðsins að tillögu Eggerts Vals Guðmundssonar. Samkvæmt ályktuninni vill ráðið leggja áherslu á að áfram verði unnið í samræmi við tillögu verkefnastjórnarinnar sem vann drög að áætluninni, og virkjanirnar ekki færðar í biðflokk eins og breytingartillaga umhverfis- og iðnaðarráðherra gerir ráð fyrir.

Þar segir einnig að ljóst sé að efasemdir um afdrif og framtíð laxastofnsins í Þjórsá vegna virkjanaframkvæmda eiga einungis við um Urriðafossvirkjun. Því sé ekkert því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir við Holta-og Hvammsvirkjanir.

Hvetur bæjarráð þingmenn eindregið til þess að fara að tillögu verkefnastjórnarinnar sem vann drög að Rammaáætlun um að tvær efstu virkjanir í neðri Þjórsá verði áfram skilgreindar í nýtingarflokki en farið að varfærnisrökum gagnvart afdrifum laxastofnsins og fyrirhuguð Urriðafossvirkjun verði sett í bið á meðan málið er skoðað enn frekar.

Fulltrúar B og D lista tóku undir sjónarmið Eggerts og sögðu jafnframt mikilvægt að nýta orkukostina og koma atvinnulífinu af stað.

Fyrri greinJola sýnir á Sólheimum
Næsta greinFljótlega ráðist í endurbyggingu á skemmunni