Vill reisa vatnagarðinn í Ölfusinu

Árni Björn Guðjónsson ætlar, fyrir hönd Aqua Islandia & Eden Garden, að óska eftir lóð undir ferðamannamiðstöð með vatnagarði og Eden görðum í landi Landgræðslu ríkisins fyrir utan Þorlákshöfn.

Fyrir síðasta fundi bæjarráðs Ölfuss lá fyrir ósk um umsögn sveitarfélagsins vegna lóðarbeiðni Árna Björns. Í bókun sinni segist sveitarfélagið taka jákvætt í framkvæmdir sem skapa atvinnu og eru góð kynning fyrir sveitarfélagið.

Lóðin sem Aqua Islandia hefur augastað á er einkaland sem fyrirtækið mun leita eftir samningum við Landgræðsluna um leigu eða kaup á.

Bæjarráð samþykkti samhljóð bókun þar sem segir meðal annars að sveitarfélagið geti ekki gefið út viljayfirlýsingu um að verkefnið fái land í Ölfusi, sú yfirlýsing verði að koma frá landeiganda. Þegar sú yfirlýsing liggur fyrir, sem og framkvæmdaáætlun frá umsækjanda og fjármögnun verið tryggð er sveitarfélagið tilbúið að taka málið fyrir á hefðbundinn hátt.

Árni Björn hafði áður lýst yfir áhuga á að reisa ferðamannamiðstöðina á Skeiðum og var kynningarfundur vegna verkefnisins haldinn í júní árið 2012. Þá skráðu átta manns sig í undirbúningsfélag.