Vill norskar mjólkurkýr til landsins

„Já, ég ætla að leggja fram frumvarp á Alþingi í haust um að flutt verði inn nýtt mjólkurkúakyn til landsins, ég er að tala um norskar rauðflekkóttar kýr, sem ég vil sjá í íslenskum fjósum.“

Þetta segir Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þegar hún var spurð hvort það væri rétt að hún ætlaði að leggja fram slíkt frumvarp.

Hún segist lengi hafa verið þeirrar skoðunar að það ætti að flytja inn nýtt mjólkurkúakyn til landsins til að gera bændum kleift að efla sína framleiðslu og vera þannig samkeppnishæfari við erlenda aðila.

„Við erum með gögn í höndunum sem sýna það svart á hvítu að það er lítil áhætta fólgin í því að flytja inn norskar kýr. Þá hefur það sýnt sig að þær mjólka miklu betur en íslensku kýrnar. Kúabú í Noregi er að skila um 700 þúsund lítrum að meðaltali á ári í gegnum róbót á meðan jafnstórt bú á Íslandi er að skila 400 þúsund lítrum,“ segir Unnur Brá.

Þá vekur hún athygli á að skyldleikaræktun íslensku kýrinnar sé orðið vandamál í kúastofninum.

UPPFÆRT 25/08/14 KL. 18:37

Fyrri greinSkipað í fjóra starfshópa
Næsta greinBrotist inn á Seylon