Vill meta gæðin með Skólavog

Grímsnes- og Grafningshreppur hefur áhuga á að nýta sér Skólavogina til að sinna eftirliti með gæðum skólastarfs, að því gefnu að a.m.k. 60-70% sveitarfélaga á Íslandi verði með í verkefninu.

Skólavogin er tilraunaverkefni á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hefur verið í þróun frá árinu 2007. Skólavogin skilar samanburði á viðhorfi nemenda, foreldra og starfsfólks í grunnskólum, frammistöðu nemenda á samræmdum prófum ásamt framfarastuðli og ýmsum rekstrarupplýsingum.

Með skilgreiningu og sundurliðun rekstrarliða í Skólavoginni er hægt að bera ýmsa rekstrarliði grunnskóla saman við grunnskóla annarra sveitarfélaga.

Skólavogin byggir á norskri aðferðarfræði sem hefur verið löguð að íslenskum aðstæðum og hægt er að leggja kannanirnar fyrir á íslensku, ensku og pólsku.

Í mars 2010 höfðu 36 sveitarfélög samþykkt þátttöku í verkefninu og voru Árborg, Bláskógabyggð og Sveitarfélagið Ölfus á meðal þeirra.

„Þetta er athyglisvert verkefni en það þarf eiginlega samanburðarsveitarfélög,“ segir Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps. „Með Skólavoginni getum við til dæmis séð hvað einstaka rekstrarliðir skólans kosta svo sem gangavarsla og tölvur.“

Samkvæmt grunnskólalögunum frá 2008 ber sveitarfélögum að sinna eftirliti með gæðum skólastarfs og getur Skólavogin nýtist vel sem einn þáttur í innra mati og eftirliti þeirra.

Fyrri greinÁttunda byggingin á 16 árum
Næsta greinNjála lesin frá A-Ö