Vill gamla slökkvibílinn á götuna

Eyrbekkingurinn Vigfús Markússon vill sjá gamla slökkvibílinn á Eyrarbakka aftur á götunni. Bíllinn er í eigu Sjóminjasafnsins og hefur safnað ryki undanfarin ár.

Vigfús hefur stofnað Facebook hóp undir yfirskriftinni „Hollvinafélag slökkvibílsins á Eyrarbakka“ og á hópurinn nú 174 aðdáendur.

„Ég hafði verið að röfla í Lýð Pálssyni hjá safninu að koma bílnum á götuna aftur en það gerðist lítið og þá datt mér þetta í hug,“ segir Vigfús í samtali við sunnlenska.is. „Það er leiðinlegt hvernig er komið fyrir bílnum. Hann er gangfær og í ágætu standi og það þarf ekki stórar upphæðir til að koma honum í sýningarhæft ástand,“ segir Vigfús sem vill sjá bílinn þeyta sírenuna á tyllidögum eins og Jónsmessuhátíð og Aldamótahátíð.

Bíllinn er af gerðinni Chevrolet árgerð 1941. Hann var keyptur notaður frá Hafnarfirði árið 1957 og er fyrsti slökkvibíllinn á Eyrarbakka. Hann er ekinn aðeins 8000 mílur frá upphafi. Sjóminjasafnið á Eyrarbakka á bílinn en Eyrarbakkahreppur gaf safninu hann eftir að hreppurinn gerðist aðili að Brunavörnum Árnessýslu árið 1989.

„Það er ekkert ryð í honum en lakkið er töluvert farið að láta á sjá. Það þarf að laga bremsurnar og vatnsdæluna og sprauta hann til að hann verði skínandi fínn. Hann stóð úti eitt sumar og það sá töluvert á honum eftir það auk þess sem hann var ekki í nógu góðu geymsluhúsnæði til að byrja með,“ segir Vigfús en slökkvibíllinn er nú í góðu skjóli í gamla frystihúsinu.

Vigfús stendur fyrir söfnun á frjálsum framlögum til að ráðast í endurbætur á bílnum. „Ef menn myndu leggja til 2000 krónur þá væri þetta nú fljótt að koma. Það gæti þess vegna verið nokkurskonar árgjald því þegar viðgerðinni á slökkvibílnum væri lokið þá væri hægt að ráðast í uppgerð á öðrum bílum safnsins,“ segir fornbílaáhugamaðurinn Vigfús að lokum.

Þeir sem hafa áhuga á að leggja Vigfúsi lið í söfnuninni er bent á reikning slökkvibílsins: 0586-14-100722, kt. 450464-0159.

Facebook síða slökkvibílsins