Vill fleiri erlenda ferðamenn í hreppinn

Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, segir að ferðaþjónustuaðilar í hreppnum eigi talsvert inni við það að lokka erlenda ferðamenn betur í hreppinn.

Í pistli í nýjasta tölublaði Pésans gerir Jón að umfjöllunarefni skýrslu sem unnin var fyrir ferðamálafulltrúa Uppsveita um fjölda ferðamanna, annars vegar á Laugarvatni og hins vegar á Flúðum 2012-2013.

Í skýrslunni kemur fram að sumarið 2012 var áætlað að um 110.000 erlendir ferðamenn hefðu heimsótt Laugarvatn en 36.000 komið á Flúðir. Veturinn 2012-2013 var þessi sami fjöldi áætlaður 72.000 á Laugarvatni en 24.000 á Flúðum.

„Hvað varðar Íslendinga má áætla að nær 140.000 hafi átt leið um Laugarvatn og nær 120.000 farið um Flúðir. Þetta er áhugavert því þarna sést að við keppum ekki enn við Gullna hringinn hvað varðar erlenda ferðamenn en erum sterkari í innlendum ferðalöngum,“ segir Jón í pistli sínum og bætir við að þó Hrunamenn geti ekki beint kvartað þá þýði þessar upplýsingar að ferðaþjónustuaðilar í Hreppnum eigi talsvert inni, sérstaklega að lokka erlenda ferðmenn betur inn á svæðið.

Fyrri greinLerkitré á Grafarbakka valið tré ársins
Næsta greinStórleikur Bjartmars dugði ekki til