Vill fimm stór sveitarfélög

Þorgils Torfa Jónssyni, oddvita Rangárþings ytra hugnast ekki að sjá öll sveitarfélögin á Suðurlandi sameinast í eitt, hvað þá að sveitarfélögin í hverri sýslu sameinist.

„Ég sé miklu frekar fyrir mér að það dygði að hafa fimm sveitarfélög á Suðurlandi. Í fyrsta lagið yrði það Árborg með sína átta þúsund íbúa, í öðru lagði yrði það uppsveitirnar í Árnessýslu, Flóahreppur, Ásahreppur og Rangárþing ytra með um fimm þúsund íbúa, í þriðja lagi sé ég fyrir mér að Hveragerðisbær og Sveitarfélagið Ölfus sameinist með sína rúmu 4.200 íbúa.

Þá yrði Vestmannaeyjabær áfram sérstakt sveitarfélag með 4.200 íbúa og loks sé ég fyrir mér Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp, Skaftárhrepp og Sveitarfélagið Hornafjörð fara undir sömu sæng en það sveitarfélagið yrði með um 4.800 íbúa,“ segir Þorgils Torfi.

Hann segir að með þessum hætti verði íbúatalan allsstaðar yfir fjögur þúsund. Torfi segir gömlu sýslumörkin sem byggðust á hvar ár rynnu, rugla mest umræðuna um sameiningu.

„Nú eru þessi fljót engin hindrun milli fólks með bættum samgöngum og væntanleg brú yfir Þjórsá við Árnes styrkir samskipti enn frekar,“ segir oddviti Rangárþings ytra.

Fyrri grein„Allir í bíó um páskana“
Næsta greinSextíu og sjö vilja komast í sumarafleysingar