Vill fá álit á hæfi bæjarfulltrúa D-lista

Eggert Valur Guðmundsson, S-lista, vill að bæjarlögmaður gefi álit á á hæfi allra bæjarfulltrúa D- listans sem tóku þátt í að hafna tilboðum í sorphirðu í Árborg fyrir skömmu.

Eftir útboð á sorphirðu í sveitarfélaginu ákvað meirihlutinn að hafna báðum tilboðum sem bárust, frá Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu, vegna meints galla á framkvæmd útboðsins.

Í bókun á bæjarráðsfundi í gær bendir Eggert á að sveitarstjórnarmanni beri að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans.

Í þessu samhengi óskar Eggert eftir því að bæjarlögmaður gefi álit á hæfi Eyþórs Arnalds, Ara Thorarensen, Söndru Hafþórsdóttur, Gríms Arnarsonar og Gunnars Egilssonar.

„Ég vil fá úr því skorið hvort allir fulltrúarnir hafi verið hæfir. Ég efast um að svo sé, án þess þó að ég vilji nafngreina einhvern einn og þess vegna fer ég fram á að þeir verði allir skoðaðir,“ sagði Eggert í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinÞrír Selfyssingar í æfingahóp U21
Næsta greinÓfærð víða á Suðurlandi