Vill að Sláturfélagið skili lóð

Hafnarstjórn Þorlákshafnar leggst gegn því að frestur verði framlengdur vegna hátt í 5.000 fm lóðar sem Sláturfélag Suðurlands hf. hafði fengið úthlutað við höfnina.

Samþykkti hafnarstjórn að endurgreiða sveitarfélaginu andvirði lóðarinnar úr Hafnarsjóði. Að sögn Indriða Kristinssonar hafnarstjóra bíður málið endanlegrar afgreiðslu sveitarstjórnar. ,,Hafnarstjórn sér að það er betra að hún eigi þessa lóð sjálf,“ sagði Indriði.

Hafnarstjórn hafði fengið erindi frá SS um lengingu frests til að hefja framkvæmdir á lóðinni Hafnarskeiði 10a til ársloka 2014. Samkvæmt samningi sveitarfélagsins og SS frá 23. febrúar 2007 fékk SS úthlutað lóðinni með þeim skilyrðum að framkvæmdir hæfust fyrir árslok 2010. Hafði SS ætlað að reisa fóðurafgreiðslu á lóðinni.