„Viljum taka virkan þátt í uppbyggingunni“

Sigurður Fannar á skrifstofu Borgar við Eyraveg á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á dögunum opnaði Borg–fasteignasala útibú á Selfossi. Það er Sigurður Fannar Guðmundsson, einn af eigendum fasteignasölunnar, sem er í forsvari fyrir nýju þjónustuskrifstofuna, sem er til húsa að Eyravegi 31, í sama húsnæði og Pro-Ark teiknistofa.

Sigurður Fannar er heimamaður á Selfossi, borinn og barnfæddur og þekkir vel til fasteignamarkaðarins á Suðurlandi.

„Hér á Selfoss og um Suðurland allt er ört vaxandi samfélag og sú þróun virðist vera áfram í kortunum. Við viljum taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu og þess vegna var rökrétt framhald að opna skrifstofu hér á svæðinu,“ segir Sigurður Fannar sem hefur starfað við fasteignasölu, með beinum og óbeinum hætti í 20 ár og þekkir vel til.

„Á þessum tíma hefur mikil reynsla safnast í sarpinn og nú er kominn tími til þess að deila þeirri reynslu með viðskiptavinum okkar á Suðurlandi og Selfossi. Ég er persónulega sérstaklega spenntur að koma aftur til baka á minn gamla heimavöll, og hlakka mikið til að hitta gamla viðskiptavini og kynnast nýjum,“ segir Sigurður Fannar sem vill koma á framfæri þakklæti fyrir þau jákvæðu viðbrögð sem hann hefur fengið persónulega, í tilefni að opnun Borgar á Selfossi.

„Verkefnin hafa verið að aukast jafnt og þétt þar sem þessir tveir markaðir, Suðurland og höfuðborgarsvæðið, tvinnast saman og ég er svo heppinn að þekkja bæði markaðssvæðin vel og viðskiptavinir okkar njóta góðs af því. Tæknin er líka að breytast og þannig styttast vegalengdir, með óbeinum hætti. Fólk þarf minna að ferðast til vinnu og getur unnið meira heima. Allt hjálpast þetta að, við að styrkja uppbyggingu á svæðinu,“ bætir Sigurður við.

Aðspurður hvort hann sé kominn til að vera, þá segir Sigurður að fyrsta skrefið sé stigið.

„Eitt skref í einu. Það er betra að fara hægt yfir og vanda til verka, það hefur reynslan kennt mér. Sjá svo hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir Sigurður bjartsýnn og brattur að lokum, enda vor í lofti og líflegt á fasteignamarkaði.