Vilji til að skipta eigninni upp

Talsverð óvissa ríkir um framhald og eignarhald á jörðinni Alviðru undir Ingólfsfjalli. Áhugi er á því í Héraðsnefnd Árnesinga að skipta eigninni, en miklar kvaðir fylgdu þessari gjöf til Árnessýslu á sínum tíma.

Verið er að kanna leiðir til þess í samstarfi við Landvernd, hinn eiganda Alviðru. Sú tilhögun gæti mjög vel verið til hagsbóta fyrir báða eigendurna.

Að sögn Aðalsteins Sveinssonar, oddvita Flóahrepps og héraðsnefndarmanns, hefur starfsemi á Alviðru smá saman lagst af og eru menn nú að reyna að skoða framhald starfseminnar. Hefur verið rætt um að hafa makaskipti við Landvernd og að Héraðsnefnd fengi þá hugsanlega einhverja aðra jörð og er það í samræmi við samþykkt allsherjarnefndar Héraðsnefndar Árnesýslu.

,,Eins og staðan er núna þá þarf að finna aðra umgjörð utan um rekstur jarðarinnar því not af henni eru lítil sem engin í dag,” sagði Aðalsteinn. Um tíma var heilmikið fræðslustarf á jörðinni en eftir að opinber framlög voru skorin niður hefur það lagst af.

Laxveiðihlunnindi eru í Alviðru og sagði Aðalsteinn að þau stæðu að hluta til undir rekstrarkostnaði.