Vilji til að koma Hamri á fjárlög

„Ég lít svo á að ráðuneytið sé að óska eftir því að hönnun verknámshússins fari inn á fjárlög næsta árs, og við munum nýta okkur þetta bréf til að knýja það fram.“

Þetta segir Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis en Sunnlenska fréttablaðið hefur undir höndum bréf frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem staðfestir að ráðuneytið hefur í vinnu við fjárlagagerð næsta árs óskað eftir að veitt verði fjárframlag vegna hönnunar verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Málið á sér nokkuð langa sögu þar sem sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi hafa um nokkurt skeið reynt að fá fjármálaráðuneytið til að skrifa undir samning um byggingu hússins en það hefur ekki fengið þá afgreiðslu sem þarf svo hefja megi undirbúning.

Til eru í sjóði fjármunir sveitarfélaga á Suðurlandi sem duga fyrir 40% af kostnaði við byggingu Hamars en ríkið á að fjármagna 60%.

Samkvæmt heimildum Sunnlenska er ekki gert sérstaklega ráð fyrir fjármunum til hönnunarinnar í fjárlagafrumvarpinu sem nú er í smíðum en til staðar þarf að vera fjárheimild og málið hefur ekki farið fyrir nefnd um opinberar framkvæmdir.

Mögulegt er að mati þeirra sem blaðið ræddi við að fjármunir sem þarf til að hefja hönnun, líklegast um 70-80 milljónir króna, geti komið af ráðstöfunarfé menntamálaráðuneytisins sem ekki er til ótilgreindra verkefna.

Engu að síður lítur Björgvin svo á að komin sé skuldbinding af hálfu ríkisins. „Og fyrir okkur þýðir það að þetta verði inni á fjárlögum.“