Viljayfirlýsing um lágvöruverðsverslun á Hellu liggur fyrir

Hella. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Skipulags- og umferðarnefnd Rangárþings ytra hefur lagt það til við sveitarstjórn að samþykkja stækkun lóðarinnar Faxaflata 4 á Hellu. Áætlað er að þar rísi verslunarrými fyrir lágvöruverðsverslun og aðra þjónustu.

Fyrir liggur viljayfirlýsing þar sem Drangar hf. lýsa yfir áhuga á að setja upp matvöruverslun náist samningar við eigendur fasteignarinnar, sem Land and Houses ehf. og Cheng Hoon International Development ehf. stefna á að byggja.

Drangar hf. eiga meðal annars Samkaup og Orkuna.

Í bókun nefndarinnar segir að unnið sé að samkomulagi við verslunarkeðju sem kallar á stærra húsnæði en nú er gert ráð fyrir á reitnum.

„Samhliða er óskað eftir að staðsetning á húsnæði færist sunnar sem stækkun nemur til að koma fyrir fleiri bílastæðum fyrir framan í tengslum við verslunarkeðjuna. Núverandi stærð lóðar og stærð á byggingarreit takmarka þessar forsendubreytingar og eru því lykilatriði í þeirri framþróun sem fyrirhuguð er. Viljayfirlýsing liggur fyrir milli aðila til byggingar á verslunarrými fyrir lágvöruverðsverslun á fyrstu hæð,“ segir í bókuninni.

Fyrri greinSamtalsfundur á Sviðinu um hagsmuni barna
Næsta greinMargir heimsóttu nýja Heilsugæslu Uppsveita