Vilja verknámshús strax eða leysa til sín pening

Sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi vilja fá pening sem sveitarfélög hafa lagt inn í sjóð til byggingar nýs verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands, til baka, tryggi fjármálaráðuneytið ekki fjármuni til hússins fyrir ágústlok.

Um er að ræða 140 milljónir króna sem sveitarfélög sem standa að skólanum hafa lagt fram til viðbyggingar við núverandi verknámshús, en sveita­félögin eiga samkvæmt samningi að leggja fram 200 af þeim 500 milljónum sem kostar að reisa húsið.

Rætt var um málið á fundi héraðsnefndar Árnesinga nýlega þar sem ályktað var að sveitarfélögin leystu til sín sjóðinn og var almenn samstaða um það á fundinum.

Gunnar Þorgeirsson formaður héraðsnefndar segir með ólíkindum að fjármálaráðuneytið skuli ekki samþykkja að leggja fram peninga til að hefja byggingu hússins, en fulltrúar sveitarfélaganna og menntamálaráðuneytisins skrifuðu undir samning í fyrrahaust um að hafist yrði handa við verkið. Enn vantar undirskrift fjármálaráðherra undir þann samning.

Viðbyggingin á að verða um 1600 fermetrar og kemur til viðbótar á núverandi húsnæði, Hamri, sem er 1200 fermetrar og var byggt á árunum 1978-79. „Með þessar 140 milljónir frá sunnlensku sveitarfélögunum má hefja undirbúning og hönnun strax og raunar koma húsinu upp úr jörðinni,“ segir Gunnar. „Sveitarfélögin geta alveg notað þennan pening í önnur verkefni og það er alveg stórundarlegt hvernig ríkið hagar sér í þessu máli um leið og iðnaðarmenn vantar vinnu og talað er um á hátíðarstundum að efla þurfi verklegt nám,“ segir Gunnar.

Örlygur Karlsson skólameistari við Fsu segir verulega vanta upp á aðstöðu verklegra greina við skólann. „Núverandi húsnæði er alltof lítið,“ segir hann. Hefur Örlygur þrýst mjög á að framkvæmdir við nýbygginguna hefjist fljótt. „Ég hef staðið í bréfaskriftum við ráðuneytið í langan tíma vegna þessa,“ segir hann.

Ekki fengust upplýsingar hjá menntamálaráðuneytinu um málið en í fjármálaráðuneytinu könnuðust menn ekki við að gert væri ráð fyrir fjármunum til byggingarinnar í drögum að fjárlagafrumvarpi sem nú er í smíðum.