Vilja uppbyggingu skólastarfs í Villingaholti

Hópur íbúa í Flóahreppi stendur nú fyrir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á sveitarstjórn Flóahrepps að halda áfram uppbyggingu á öflugu skóla- og íþróttastarfi á Villingaholti.

Það er mat þeirra sem að undirskriftarlistanum standa að því fjármagni sem nú er áætlað til viðhalds og nýbygginga við leikskóla í Þingborg, vel á annað hundrað millljóna króna, sé betur varið í áframhaldandi uppbyggingu á Villingaholti. Þar sé nú þegar nægur húsakostur fyrir leik- og grunnskóla.

“Til að tryggja fullnægjandi þjónustu þessara stofnanna um ókomna tíð er umræddum fjármunum betur varið til byggingar íþróttamannvirkis sem getur um leið þjónað íþrótta- og félagsstarfi allra sveitunga á öllum aldri. Þar með væri framtíð skólastarfs í Flóahreppi best tryggt í framtíðinni,” segir texta á undirskriftarlistanum.

Leikskólinn Krakkaborg hefur verið til húsa í Þingborg en hann hefur nú verið opnaður tímabundið í Flóaskóla í Villingaholti eftir að myglusveppur greindist í húsinu í Þingborg.

Í vor var gerð könnun meðal íbúa um framtíðarstaðsetningu leikskólans og þar hafði Þingborg betur. Niðurstaða skoðanakönnunarinnar var sú að 204 eða 60% vildu að framtíðarstaðsetning Krakkaborgar verði í Þingborg og 127 eða 37% að framtíðarstaðsetning verði í Flóaskóla.

Fyrri greinHreppurinn hamrar á Hamarsvegi
Næsta greinÖll sunnlensku liðin fengu útileiki