Vilja sunnlenska þingmenn í veigamikil störf og embætti

Félagsfundur sjálfstæðisfélaganna í Árborg harmar að ekki hafi verið horft til góðs árangurs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í Alþingiskosningunum í haust þegar ráðherrar voru skipaðir í nýja ríkisstjórn.

Á félagsfundinum sem haldinn var í gærkvöldi var nýrri ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar fagnað, en um leið var samþykkt ályktun þar sem fram kemur að eðlilegt og sjálfsagt hefði verið að forystumaður flokksins í Suðurkjördæmi fengi sæti í ríkisstjórn, ekki síst þar sem sex af ellefu ráðherraembættum féllu Sjálfstæðisflokknum í skaut.

Bendir fundurinn á sem dæmi hversu öflugt starf er unnið undir merkjum Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarmálum í kjördæminu. Hvert sem litið sé í hinu víðfeðma Suðurkjördæmi megi finna fjölda sjálfboðaliða í öflugu félagsstarfi sem vinna að framgangi sjálfstæðisstefnunnar, landi og þjóð til heilla.

„Með þetta í huga beinir fundurinn þeirri áskorun sinni til forystu Sjálfstæðisflokksins að þingmönnum flokksins í Suðurkjördæmi verði tryggð veigamikil störf og embætti á vegum þingsins og þingflokksins á kjörtímabilinu. Þá verði horft til þessa sterka hóps til framtíðar, verði breytingar gerðar á ráðherraskipan nýrrar ríkisstjórnar,“ segir jafnframt í ályktuninni.