Vilja stöðva vegagerð í Mýrdalnum

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands krefst þess að Vegagerðin stöðvi þegar í stað framkvæmdir við nýlögn þjóðvegar í Dyrhólahverfi.

Samtökin vilja að gengið verði úr skugga um lögmæti framkvæmdanna og umhverfisáhrif þeirra. Í ályktun frá stjórn samtakanna er þess krafist að Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun rannsaki nú þegar hvernig staðið var að undirbúningi þessara framkvæmda af hálfu Vegagerðarinnar og Mýrdalshrepps, með hliðsjón af lagareglum um náttúruvernd, skipulagsgerð og lögboðið samráð við almenning og stjórnstofnanir.

Komi í ljós að tjón hafi verið unnið á svæðum sem eru innan marka lands á náttúruminjaskrá, án þess að viðhlítandi heimilda og samráðs hafi verið gætt, verði það tjón að fullu lagfært.

Umrædd vegagerð stendur nú yfir sunnan Geitafjalls í Dyrhólahverfi í Mýrdal, skammt austan eyðijarðarinnar Norðurgarðs. Skammt norðan við athafnasvæðið er Geitafjall með Loftsalahelli (hinum forna þingstað Mýrdæla), þar sunnan við er s.k. Þinghóll, þá tekur við Norðurgarðslækur, en síðan svonefndur Hraunhóll. Allt það svæði virðist innan náttúruminjasvæðisins segir í greinargerð samtakanna með ályktuninni.

“Um skeið hefur Vegagerðin undir verkstjórn Bjarna Finnssonar í Vík unnið að gerð nýs vegarkafla á veginum sem liggur frá þjóðvegi 1 og niður í Dyrhólaey. Vegarkaflinn sem um ræðir er austan við Norðurgarð (eyðijörð austarlega í Dyrhólahverfi) og norðan Loftsala (austustu jarðarinnar í Dyrhólahverfi). Tilgangur hans er að því er virðist að taka af eina eða tvær beygjur norðan Loftsala, hækka veginn og breikka. Ekki verður betur séð en hinn nýi kafli sé allur innan marka svæðis sem er á náttúruminjaskrá. Það sem meira er, hinn nýi vegarkafli er lagður í gegnum Hraunhól. Lítur út fyrir að Hraunhóll hverfi með öllu því nú er kappsamlega mokað upp úr honum og efnið notað í undirburð í hinn nýja vegarkafla,” segir ennfremur í greinargerðinni.

Samtökin vekja athygli á því að uppdráttur sem Vegagerðin á Selfossi sendi ábúendum til skoðunar sl. sumar tiltekur ekki þessa nýlögn vegar um náttúruminjasvæðið, engar þær breytingar eða nýlögn sem hér er til umræðu eru útlistaðar í þeim gögnum. Ekki er vitað til þess að þessi breyting hafi verið lögð í lögboðið umsagnarferli, hvorki almennt né meðal þeirra eftirlits- og stjórnstofnana sem að eiga að koma.

Samtökin vilja að framkvæmdin verði stöðvuð meðan kannað er hvort lögfromlega hafi verið staðið að undirbúningi, sem okkur sýnist leika mikill vafi á um. Breytingar á legu vegar hljóta að þurfa að lúta ákveðnu rannsóknar- og umsagnarferli sem hagsmunaaðilar, nágrannar og stofnanir umhverfismála og sögu- og menningarminja eiga að hafa fullt aðgengi að til álitsgjafar áður en verk eru boðin út og lögð í hendur verktaka.

Fyrri greinHvítahúsið og Stuðlabandið berjast við verðbólgudrauginn
Næsta greinEnn tapar FSu