Vilja skapa bjórmenningu

Á næstunni byrja nýstárlegar bjórkynningar í kjallara Rauða hússins á Eyrarbakka þar sem afurðir Ölvisholts brugghúss verða smakkaðar með mismunandi mat.

Ölvisholt brugghús og Rauða húsið hafa verið með hefðbundnu bjórkynningarnar á bjórtegundum frá Ölvisholti síðan í apríl og hafa yfir eitt þúsund manns sótt þær á þeim tíma.

Sigurður Ástráðsson, kynningarstjóri Ölvisholt brugghúss, segir að með þessu vilji þeir auka við bjórmenninguna á Íslandi. „Þetta litla brugghús er búið að breyta miklu,“ segir hann.

Í grunninn á bjórmenning á Íslandi sér aðeins tæplega 24 ára sögu, frá því 1. mars árið 1989. Þess vegna vilji forráðamenn Ölvisholts og Rauða hússins kynna það fyrir landsmönnum hvernig hægt er að nota bjór með mat og í matargerð.

Nýju kynningarnar með þeim hætti að bjórinn verður prófaður með mismunandi mat frá Rauða húsinu. Annars vegar verða mismunandi bjórar prófaðir með fjórum mismundandi tapas-réttum og hins vegar verður fjögurra rétta matseðill prófaður með bjórunum. Skjálfti með sjávarréttasúpu, Freyja með fiski dagsins, Móri með lambakjöti og Lava með súkkulaðiköku. Leitast verður eftir því að notast við afurðir úr héraði.

Þeir sem vilja kynna sér málið nánar, er bent á að hafa samband við Rauða húsið.

Fyrri greinJólin kvödd á Selfossi
Næsta greinGrétar Ingi valinn íþróttamaður Ölfuss