Vilja sjá um rekstur íþróttamannvirkja

Ungmennafélag Selfoss hefur óskað eftir viðræðum við Sveitarfélagið Árborg um hvort grundvöllur sé fyrir því að ungmennafélagið taki að sér rekstur íþróttamannvirkja sveitarfélagsins á Selfossi.

„Fyrst og fremst er um að ræða íþróttahúsin á Selfossi þ.e. Vallaskóla og Baulu ásamt Sandvíkursal og Selfossvelli eins og þegar er samningur um. Við viljum kanna hvort að við getum aukið og bætt þá góðu þjónustu sem íþróttahúsin eru að veita í dag með því að sjá um daglegan rekstur þeirra.

Einnig langar okkar að athuga hvort hægt er að ná ákveðnu hagræði sambærilegu því sem við höfum náð í rekstri Selfossvallar,“ segir Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri Umf. Selfoss, í samtali við Sunnlenska.

„Það er rétt að taka skýrt fram að um er að ræða ósk um viðræður sem er grundvöllur þess að við getum myndað okkur skoðun á því hvort fótur sé fyrir hugmyndum okkar,“ bætir Gissur við.

Bæjarráð hefur samþykkt að taka upp viðræður við félagið.

Fyrri greinFimm verkefni hlutu menningarstyrki
Næsta greinNjálurefillinn hlaut Menntaverðlaun Suðurlands