Vilja sjá snörp viðbrögð við flóttamannavanda

Þrjár konur á Selfossi hafa sent bæjaryfirvöldum í Árborg áskorun þess efnis að þau boði forystumenn SASS, fulltrúa Rauða krossins og aðra þá aðila sem málið varðar til fundar um málefni flóttafólks.

Þær Auður I. Ottesen, Elín Finnbogadóttir og Margrét Ingþórsdóttir skrifuðu bréfið en í því segir að þær hafi tekið hvatningu félagsmálaráðherra um viðbrögð við flóttamannavanda að þær séu tilbúnar til að opna heimili sitt fyrir flóttafólki og hyggist þær stuðla að því að hvetja fleiri heimili í sveitarfélaginu að veita því móttöku.

Það sé ósk þeirra að stjórnvöld og opinberir aðilar sjái til þess að flóttafólk fái hér hæli, eins og það er orðað í bréfinu.

Auður segir framkvæmdastjóra Sveitarfélagsins Árborgar, Ástu Stefánsdóttur, hafa tekið erindi þeirra vel en vinna verði hratt. Hún vill jafnframt heyra frá fleirum sem hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum með netpósti á audur@rit.is.

Á fundi bæjarráðs Árborgar í gær var samþykkt að fela félagsmálastjóra sveitarfélagsins að taka saman minnisblað varðandi fyrirkomulag á móttöku flóttamanna, s.s. um húsnæðismál, framfærslu, skólamál, félagslega aðstoð, annað vinnuframlag félagsþjónustu og aðkomu annarra aðila.

Sveitarfélaginu hefur borist beiðni Velferðarráðuneytisins um að það láti vita um afstöðu sína til þess hvort það hafi áhuga á að taka á móti flóttafólki eigi síðar en 10. september næstkomandi.

Fyrri greinLeikfélag Ölfuss „sýnir“ undir stiganum
Næsta greinUngmenni sluppu ómeidd úr hörðum árekstri