Vilja setja upp sleðabraut í Ölfusdal

Sleðabrautir sem þessar voru fyrst settar upp í Ölpunum, en telja nú hundruði um allan heim. Ljósmynd/Kambagil

Kambagil ehf, sem vinnur nú að því að setja upp sviflínu við Svartagljúfur, hefur óskað eftir því við Hveragerðisbæ að hefja viðræður um uppsetningu á sleðabraut austan við Svartagljúfur, við Árhólma í Ölfusdal.

Erindi Kambagils var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Hveragerðis fyrr í mánuðinum. Bæjarráð tók vel í erindið og fól Geir Sveinssyni, bæjarstjóra, að vinna málið frekar.

Sleðabrautir sem þessar má finna víða um heim en engin slík braut hefur verið sett upp hér á landi áður. Áætlanir Kambahrauns gera ráð fyrir að brautin verði um 1 km á lengd með um 650 m „lyftu“ eða samtals um 1.650 metrar. Brautin gæti opnað sumarið 2024 ef deili- og skipulagsmál ganga eðlilega fyrir sig.

Kambagil gerir ráð fyrir heilsársopnun á brautinni og áætlaður gestafjöldi á ári er á milli 35–40 þúsund gestir.

Fyrri greinOpnunartími gámasvæðisins styttur
Næsta greinFjórtán milljónir króna í snjómokstur í desember